17 ára flýtimeðferð

Fram er komið frumvarp um að fella vindorku undir rammaáætlun.  Markmiðið er að flýta uppbyggingu vindorku.  Á sama tíma hafa stjórnvöld sett loftslagsmarkmið sem kalla á græna orku, m.a. til orkuskipta.  Staðan í orkumálum er hins vegar sú að sárlega vantar græna raforku sem sýnir sig í því að skerða þarf raforku til fjarvarmaveitna (t.d. Vestmannaeyja), fiskimjölsverksmiðja, gagnavera og stóriðjunnar, sem þurfa að brenna olíu eða draga rekstur saman. 

Gróflega má áætla að kostnaður þjóðarbúsins í ár vegna skorts á grænni orku sé um 12-17 milljarðar króna, sem jafngildir aflaverðmæti um 14 togara, þ.e. segja má að íslendingar hafi misst 14 togara úr landi í ár.

Langan tíma tekur að fá leyfi fyrir grænni orku

Rammaáætlun, lög nr. 48 frá 2011, er leyfisveitingaferli sem svarar tveimur spurningum, 1) á að nota ákveðið land fyrir græna orku eða 2) friða það.  Meðaltími verkefna sem fengu afgreiðslu í þriðju rammaáætlun (R3) sem afgreidd var árið 2022 var 16 ár og dæmi um verkefni hafi tekið 23 ár. Það tók 15 ár að fá afgreiðslu rammaáætlunar á Hvammsvirkjun og því til viðbótar hefur sveitarstjórn heimild til að fresta skipulagi í 13 ár. Leyfisveitingaferli Hvammsvirkjunar gæti því í versta falli tekið 33 ár.

Nú stendur til að fella vindorku undir rammaáætlun.  Nokkrir galla eru á frumvarpinu og betur má ef duga skal því frumvarpið gengur gegn þeim markmiðum sem sett voru, þ.e. að flýta uppbyggingu.  Áætla má að verkefni í vindorku í rammaáætlun geti tekið allt að 38 ár í vinnslu þar til orka fer að streyma frá verkefninu sem byggir á raunverulegum dæmum. Rammaáætlun getur tekið 16-23 ár, aðalskipulagsbreyting getur tekið 7 ár, mat á umhverfisáhrifum (MÁU) 3 ár, umsókn um virkjanaleyfi og önnur leyfi 2 ár og bygging vindlundar um 3 ár.  Samtals eru þetta 31-38 ár.

vindur i ramma

 

 

 

Einhverjir kunna að spyrja sig hvor ekki sé hægt að vinna aðalskipulag samhliða rammaáætlun og spara tíma, eða MÁU.  Svarið er að vissulega er það hægt en ólíklegt því ekki er ráðlegt að eyða miklum fjármunum í þá vinnu fyrr en spurningunni um hvort friða eigi landið eða ekki er svarað svo fjármunum sé ekki sóað til einskis.

„Flýtimeðferð“ vindorku

Í frumvarpinu er boði uppá flýtimeðferð sem þá fer beint til ráðherra.  Þó tími flýtimeðferðar komi ekki fram þá má gera ráð fyrir að ferlið taki a.m.k. 2 ár því verkefnastjórn þarf að meta hæfi verkefnanna, þá er verkefnið sent til ráðherra sem sendir það til umsagnar ýmissa aðila

Flýtimeðferð vindorku, þ.e. frá umsókn í rammaáætlun til loka byggingar gæti verið 17 ár, 2 ár í rammaáætlun, 7 ár fyrir aðalskipulagsbreytingu (raunverulegt dæmi), 3 ár í mati á umhverfisáhrifum (raunverulegt dæmi), 2 ár í umsókn um virkjanaleyfi og önnur leyfi (raunverulegt dæmi), og að síðustu 3 ár í byggingu, samtals 17 ár.

flytimedferd

 

 

 

 

Mögulega verður ferlið eitthvað styttra en lesendum kann að þykja þetta skjóta skökku við, þ.e. að flýtimeðferðin taki allt að 17 árum.  Fólk gæti spurt sig, er það flýtimeðferð? 

Lokaorð

Ef stjórnvöldum er alvara með að byggja græna raforku upp hratt og örugglega svo forða megi frekari díselmengun sem gengur gegn loftslagsmarkmiðum, forða stórkostlegum efnahagslegum skaða á þjóðarbúið og forðast að greiða milljarða í sektir ef kolefnismarkmið nást ekki, þá þarf frumvarp um græna orku sem virkilega leysir málið.  Það frumvarp sem nú liggur fyrir um að fanga vindorku í rammaáætlun gengur þvert gegn markmiði sínu um að flýta uppbyggingu.

Er ekki kominn tími á að einfalda leyfisveitingaferli grænnar orku?  Fella niður rammaáætlun og setja upp 1 leyfi sem tekur 1 ár að sækja?  Er í alvöru hægt að segja að 17 ára „flýtimeðferð“ flýti málinu? 


Er skömmtun á grænni orku besta leiðin?

Vegna skorts á grænni raforku á Íslandi stendur til að setja skömmtunarkerfi í lög.  Til stendur að ráðherra verði skömmtunarstjóri ríkisins. 

Þessi staða, skortur á grænni raforku, er tilkomin vegna algjörlega óviðunandi stöðu í leyfisveitingum grænnar raforku sem tekur fjölda ára eða áratugi, eins og undirritaður hefur áður bent á.  Ísland er nú í þeirri stöðu að auðveldara og mun fjótlegra er að fá leyfi fyrir skítugri díselorku en grænni orku, undarleg staða svo ekki sé meira sagt í ljósi metnaðarfulltra markmiða í loftslagsmálum sem sett hafa verið í lög nú þegar.  Segja má að ein höndin sé uppi á móti annarri í stjórnun orku og loftslagsmála og ef ekkert verður að gert mun það kosta þjóðina þúsundir milljóna á ári í loftslagssektir.

Er ekki kominn tími til að hætta skipulögðum töfum á grænorku verkefnum og innviðauppbyggingu, á þeim rökum að það þurfi að vanda sig svo mikið og fara sér hægt.  Þeir sem þekkja til þeirra krafna sem gerðar eru til rannsókna og mati á umhverfisáhrifum vita að slík rök halda ekki vatni, lög um mat á umhverfisáhrifum tryggja gæði, enga rammaáætlun þarf til eða tafir. Einnig er athyglisvert að krafan um að vanda sig er ekki gerð á skítugu díselorkuna.

Skömmtunarfrumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af fjölda aðila, m.a. StormOrku, HS Orku, Orku Náttúrunnar, Samtökum Iðnaðarins, o.fl. sem er ekki furða enda stórundarlegt að land sem er jafn auðugt af tækifærum í grænni orku og Ísland er sé í þessari stöðu. 

Þá spyr ég, er skömmtun á grænni orku besta leiðin eða eru aðrar leiðir betri?  Ljóst er að skömmtun ræðst ekki að rót vandans en freistar þess að setja plástur á mesta skaðan fyrir heimili landsins.  Jafn ljóst er hins vegar að atvinnustarfsemi og útflutningstekjur landsins munu líða fyrir.  Ísland verður fyrir milljarða tjóni á ári hverju um ófyrirséða framtíð.

Lausnin

Í stað þess að setja upp skömmtunarkerfi sem ekki leysir vandamálið þá er hægt að ráðast að rót vandans og straumlínulaga leyfisveitingakerfi grænnar raforku, koma uppbyggingu í gang strax.

Lausnin felst í því að fella niður rammaáætlun enda hefur hún lokið tilgangi sínum og setja upp kerfi þar sem virkjunaraðilar sæki 1 leyfi sem tekur 1 ár að afgreiða.  Með því að straumlínulaga leyfisveitingaferli grænnar raforku næst samstilling loftslags- og orkumála, og komið verður í veg fyrir stórkostlegt fjárhagstjón þjóðarinnar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og skerðingu á þjóðarafkomu.

Af hverju er ekki ráðist að rót vandans?  Er skömmtunarplástra aðferðin virkilega besta leiðin?

www.okkarhlid.is

 


Óeðlilega langur leyfisveitingatími endurnýjanlegrar raforku á Íslandi

Skiptar skoðanir eru á því hvort vindorka heyri undir rammaáætlun í dag.  Storm Orka er þeirrar skoðunar að svo sé ekki og færir fyrir því rök sem eru m.a. þessi: 

  1. Nefnd á vegum fyrrum umhverfisráðherra skilaði skýrslu og drögum af lagafrumvarpi sem fanga átti vindinn undir rammaáætlun.  Frumvarpið varð ekki að lögum sem þýðir að vindurinn fellur ekki þar undir. 
  1. Sú skoðun að vindorka falli undir rammaáætlun byggir á lagaáliti frá Landslögum frá 2015.  Síðan þá hafa komið fram önnur álit, m.a. frá Orkustofnun og LOGOS lögfræðistofu sem benda á að lagaálit Landslaga sé í besta falli veikt og dugi alls ekki til enda þurfi mun skýrari lagaheimildir til að ganga gegn stjórnarskrárvörðum rétti sem skýrir mögulega hvatann að baki áðurnefndu frumvarpi. 
  1. Fyrir liggur úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem ekki er tekið undir það sjónarmið að vindorkan falli undir rammaáætlun. 

En af hverju skiptir þetta máli?  Ástæðan er sú að leyfisveitingaferli endurnýjanlegrar raforku er eitt lengsta leyfisveitingaferli sem um getur á Íslandi.  Dæmi eru um að 9 verkefni hafi verið í umfjöllun rammaáætlunar í 23 ár og þá eiga skipulagsbreytingar, rannsóknir og umsókn um önnur leyfi eftir að eiga sér stað sem tekið geta 4-8 ár.  Það getur því tekið allt að 30 ár að fá leyfi hins opinbera fyrir byggingu endurnýjanlegrar raforku á Íslandi.   

Dæmið hér að ofan er ýktasta dæmið sem hægt er að benda á en mikilvægt er einnig að segja frá því að meðalafgreiðsluhraði verkefna í rammaáætlun er 16 ár.  Til samanburðar má benda á að leyfisveitingaferlið fyrir díselrafstöðvar er einungis brot af þeim tíma sem tekur að fá leyfi fyrir græna orku.  Það má einnig benda á að endurnýjanleg raforka er eina atvinnugreinin sem sæta þarf tvöföldu reglugerðar og lagaumhverfi þegar kemur að leyfisveitingum, fyrst rammaáætlun og svo að þeim tíma liðnum öll önnur lög m.a. mat á umhverfisáhrifum, skipulagsbreytingar, o.s.frv. 

 

Metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands 

Á sama tíma og endurnýjanleg orka sætir met leyfisveitingatíma hafa stjórnvöld hafa sett fram mjög metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Minnka á kolefnisfótspor landsins um 55% samdrátt árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.  Þessi markmið kalla á gríðarmikla endurnýjanlega raforku og útilokað að ná þessum markmiðum nema með byggingu fjölda nýrra grænna raforkuverkefna.  Miðað við mjög svo óeðlilega langt leyfisveitingaferli grænnar raforku þá verður að spyrja, er möguleiki á að ná þessum markmiðum nema með gagngerum breytingum á leyfisveitingaferlinu, t.d. með því að leggja niður rammaáætlun? 

Fram hefur komið að ef Ísland nær ekki markmiðum sínum í loftslagsmálum þá þarf Íslands að greiða allt að 10 milljarða á ári í sektir. 

 

Lokaorð 

Af þessu að dæma þá er hægt að spyrja, fara hljóð og mynd saman í þessu máli?  Mun Ísland ná markmiðum sínum í loftslagsmálum miðað við þann langa leyfisveitingaferil sem endurnýjanleg orka þarf að sæta?  Hvers vegna þarf að fanga vind undir rammaáætlun með tilheyrandi leyfisveitingatíma? 

www.okkarhlid.is


Er hægt að stýra sölu raforkunnar vegna loftslagsmarkmiða?

Undanfarið hefur borið á þeirri skoðun í fjölmiðlum að nauðsynlegt sé að stýra því í hvað raforka fer á Íslandi. Rætt hefur verið í þessu sambandi að mikilvægt sé að stýra raforkunni inn í orkuskiptin og jafnvel að einstaka viðskiptavinir séu óæskilegir, s.s. stór iðnfyrirtæki eða rafmyntafyrirtæki.

 

Við lestur slíkra fullyrðinga vaknar sú spurning, er þetta mögulegt?

 

Hér að neðan verða reifuð rök fyrir því hvers vegna svo er alls ekki sjálfsagt.

 

1.      Samkeppnislög, nr. 44/2005, kveða skýrt á um frjálsa samkeppni en markmið laganna er að:

  a.      vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á atvinnurekstri,

  b.     vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

  c.      auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum,

  d.     stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.

 

2.      Raforkulög, nr. 65/2003, eru skýr hvað þetta mál varðar en markmið þeirra er m.a. að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.

 

3.      Lög um opinber innkaup, nr. 120/2016 kveða á um jafnræði fyrirtækja en markmið laganna er „…að tryggj jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni…“

 

4.      „Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka verðmæti þeirrar endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir,…“ (Heimild: Landsvirkjun). Landsvirkjun þarf því að selja raforkuna hæstbjóðanda. 

 

5.      Heyrst hefur það sjónarmið að eigandinn, þ.e. ríkissjóður, geti sett Landsvirkjun takmarkanir í gegnum eigendastefnu sem kveða myndu á um að öllum öðrum sjónarmiðum jöfnum þ.e. þegar um sama verð er að ræða, þá sé félaginu leyfilegt og skylt að velja viðskiptavin sem styður við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum, t.d. framleiðanda rafeldsneytis. Er mögulegt að upp komi sú staða að tveir aðilar séu tilbúnir til að borga sama verð fyrir vöruna og ef svo er er sölukerfi félagsins þá að skila hámarksverði? 

 

6.      Ef Landsvirkjun verður þvinguð til að nota önnur atriði en hæsta verð við sölu raforkunnar getur fyrirtækið verið berskjaldað fyrir mögulegum skaðabótakröfum frá kaupendum sem sitja eftir með sárt ennið. Áhættustjórnun er eitt stærsta verkefni allra stjórnenda sem reyna að forðast að aðgerðir fyrirtækisins skapi fyrirtækinu skaðabótakröfu.

 

7.      Önnur sjónarmið koma einnig til skoðunar. Mikilvægt er að seljandi velji kaupanda sem hefur greiðslugetu, að kaupandinn sé „bankable“ eins og sagt er. Í þessu felst að kaupandinn verður að hafa fjárhagslega burði til að greiða fyrir raforkuna og geta sett fram fjárhagslegar tryggingar fyrir kaupsamningnum. Að öðrum kosti getur það haft þær afleiðingar að framleiðandinn geti ekki virkjað því lánveitendur telji sölu raforkunnar ekki nægilega vel tryggða.

 

Stjórnvöld þurfa að hugsa sig vel um ef setja á lög sem stýra eiga raforkusölu. Gengur slík miðstýring gegn öðrum lögum, er hægt eða æskilegt að stýra raforku á samkeppnismarkaði með þeim hætti?

www.okkarhlid.is


Þungt leyfisveitingaferli grænnar orku - fjöldi umsagna

Kallað hefur verið eftir umbótum á leyfisveitingaferli grænnar raforku. Fjallað var um málið bæði á nýliðnu Viðskiptaþingi, á ársfundi Landvirkjunar og Iðnþingi Samtaka Iðnaðarins.

Athyglsivert er að raforkugeirinn er eina atvinnugreinin sem sæta þarf tvöföldu lagaverki þegar kemur að leyfisveitingum, annars vegar rammaáætlun og hins vegar öðrum lögum, s.s. skipulagslögum, lögum um mat á umhverfisáhrifum o.fl.

Þetta hefur valdið því að fjölda ára, jafnvel áratugi, tekur fyrirtæki að sækja virkjanaleyfi. Sem dæmi, þegar niðurstöður þriðju rammaáætlunar (R3) eru skoðaðar þá kemur í ljós að meðaltímalengd umfjöllunar rammaáætlunar er 16 ár og alls 9 verkefni sem loks fengu afgreiðslu í R3 höfðu verið til umfjöllunar rammaáætlunar í 23 ár.

Hluti af vandamálinu er hve langan tíma það tekur að sækja umsagnir ýmissa aðila um ýmsa þætti grænorku verkefna. Taflan hér að neðan sýnir umsagnir sem sækja þarf á ýmsum tímum í ferlinu (Heimild: uppfærð tafla frá VSÓ) (1). Eins og sést þá er annars vegar um lögbundnar umsagnir að ræða og hins vegar umsagnir sem kallað er eftir háð aðstæðum.

Spurningin er hvort ekki sé hægt, og tími kominn til, að straumlínulaga þetta ferli enda ríkir þjóðhagslegir hagsmunir undir.

(1) VSÓ ráðgjöf. 2020. Málsmeðferð við leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum. https://www.si.is/media/_eplica-uppsetning/Malsmedferd-leyfisveitinga_201007.pdf

 

Screenshot 3_13_2023 8_32_06 AM


Er hægt að fanga vindinn?

Vegna ágreinings um það hvort vindorka fellur undir lög nr 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (Rammaáætlun) hefur Storm Orka sætt órétti í leyfisveitingaferli vegna vindlundar félagsins. Stofnanir hafa brotið lög um málshraða og tafið afgreiðslu einstakra erinda í tugi mánaða, stjórnsýsla sem er þeim ekki til sóma.

Þannig hefur vindlundur félagsins verið tafinn um 5 ár nú þegar með verulegum kostnaði. Stefnt var að framleiðslu á grænni og endurnýjanlegri raforku árið 2021. Ef það hefði gengið eftir þá hefði Landsvirkjun ekki þurft að skerða raforku til sinna viðskiptavina sem skiptu yfir í díselolíu og þurrkuðu út allan ávinning af rafbílavæðingu frá upphafi.[1]

Ágreiningurinn byggir á einu lagaáliti frá Landslögum sem unnið var 19. janúar 2015. Í stuttu máli þá kemur fram í áliti Landslaga að túlka megi vilja iðnaðanefndar Alþingis þannig að lögin nái yfir vindorku. 

Þessi lagatúlkun Landslaga hefur sætt gagnrýni og fyrir liggja álit Orkustofnunar og 2 lögfræðiálit, Lex lögmannsstofu og LOGOS, þeirrar skoðunar að vindurinn sé ekki hluti rammaáætlunar.  Fram kemur í áliti LOGOS að lögin verði að vera skýr til að tryggja takmarkanir á stjórnarskrárvörðum réttindum, eða eins og segir í álitinu:

Það er niðurstaða okkar að þar sem túlkunin varðar stjórnaskrárvarinn réttindi, hinn meinti löggjafarvilji skilaði sér ekki með beinum hætti í lagatextann, og þar sem umfjöllun laganna virðist alfarið varða aðra virkjunarkosti, þá leiði hefðbundin lögskýringarsjónarmið til þess að lögin taki ekki með nægilega skýrum hætti yfir virkjun vindorku.

Til frekari rökstuðnings þá er mikilvægt að þetta túlkunaratriði laganna sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um eignarréttindi í 72. gr. og atvinnufrelsi í 75. gr. Ef það er vilji löggjafans að lögin eigi að ná yfir virkjunarkosti í vindorku er nauðsynlegt að það komi skýrt fram í lögum til að tryggja að þær takmarkanir sem löggjöfin hefur í för með sér samræmist ákvæðum stjórnarskrár.“[3]

Því til viðbótar tók Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) ekki undir þann málflutning að vindurinn eigi að fara í rammaáætlun í úrskurði[2] sínum nr. 30/2020 en þrátt fyrir það halda stofnanir enn fram sömu skoðun.  Auk þess hafa 2 nefndir ráðherra fengið það hlutverk að fanga vindinn inn í rammaáætlun sem bendir til þess að vindur sé alls ekki inni í rammanum. 

Ef vilji Alþingis er að fella vind undir rammaáætlun og ákveðin svæði verða fyrir valinu, hvernig á þá að gæta hlutlægni og jafnræðis við úthlutun nýtingarleyfa á þessum völdu svæðum „vindrammaáætlunar“ til úthlutunar á takmörkuðum gæðum til atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða í almannaþágu? Engin lög í landinu leysa úr þessu vandamáli.  Hvernig á að takmarka eignarétt eins, en hygla öðrum vegna stjórnvaldsákvarðana til nýtingar vindorku í eignarlandi, sem eigandi hefði, eftir atvikum, ekki forgang að?

Heimilt er að takmarka stjórnarskrárvarin rétt með vísan í ríka almannahagsmuni. Eru almannahagsmunir svo ríkir í þessu máli að setja verður lög um vindorku sem í raun taka eignarnámi t.d. landsvæði sem eru í einkaeigu með tilheyrandi tilkostnaði og skaðabótakröfu á ríkissjóð?  Er slíkt þjóðhagslega hagkvæmt?  Hvers vegna nær rammaáætlun yfir lönd í einkaeigu sem varin eru í stjórnarskrá?

Er mögulegt að láta rammaáætlun ná yfir vindorku eða er það lagatæknilega ómögulegt?

Að lokum má geta þess að hugmyndin að rammaáætlun er komin frá Noregi sem lagði þetta tæki niður árið 2016. Nokkru seinna reyndu þau að setja vindinn í ramma en féllu frá því árið 2019. Vindorkan hefur því aldrei verið í rammaáætlun þeirra.

www.okkarhlid.is

[1] Sæmundur Sæmundsson forstöðumaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs. Viðskiptaþing 2023.[2] https://uua.is/urleits/30-2020-storm-orka-ehf/
[3] LOGOS. “Minnisblað”  Efni: Virkjun vindorku og lög nr. 48/2011 um vernd


Ég á þetta, ég má þetta – ofurskattar á vindlundi

Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um gjaldtöku vegna nýtingar á vindi sem þau kalla “sameiginlega auðlind þjóðarinnar”. Rökin fyrir þessari þingsályktun segja þau vera að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í afkomu vegna nýtingar raforku og að slíkt gjald endurspegli umhverfisáhrif, standi undir eftirliti, ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum og að taka verður tillit til “raunverulegs umhverfiskostnaðar” við framkvæmdir.

Skoðum þessi rök aðeins. Fyrstu rökin eru að vindurinn sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Fram að þessu hefur vindurinn ekki verið skilgreindur sem auðlind heldur frekar sem óþurft. Þessi skilgreining á sér enga stoð í lögum og sem dæmi þá er vindurinn ekki skilgreindur sem auðlind í Auðlindalögum nr. 57/1998. En látum það liggja milli hluta, kannski er hægt að skilgreina vindinn sem “sameiginlega auðlind þjóðarinnar”. Þá vaknar upp spurning, ef þjóðin á vindinn og bændurnir Jón og Gunna verða fyrir því óláni að vindurinn feykir þakinu af hlöðunni þeirra, eiga þau þá skaðabótakröfu á þjóðina sem á vindinn?

Fyrsta fullyrðingin talar einnig um að þjóðin eigi auðlindina. Raunin er hins vegar sú að ríkissjóður er sá lögformlegi aðili sem heldur á eignarhaldi t.d. þjóðlendna. Á þessu er munur.

Næstu rök tala um að tryggja þjóðinni (ríkissjóði) sýnilega hlutdeild í afkomunni. Þegar þessi fullyrðing er sett fram þá vaknar sú spurning, fær ríkissjóður enga skatta af vindlundum í dag? Svarið er að þegar skatttekjur ríkis- og sveitarfélaga eru skoðaðar af vindlundum kemur í ljós að vindlundir greiða í dag a.m.k. 18 tegundir skatta til stjórnvalda. Finnst þingmönnum VG það ekki vera nóg? Á að bæta einum skattinum enn við? Er virkilega þörf á því? Hvaða áhrif hafa slíkir ofurskattar á raforkuverð til neytenda?

Ein rökin sem sett eru fram virðast byggja á vanþekkingu eða misskilningi. Setja á aukaskatt á vindlundi til að “standa undir ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum”. Það upplýsist hér með að það er ekki ríkissjóður eða stofnanir ríkisins sem standa undir eða framkvæma þessar rannsóknir heldur er framkvæmdaaðilum gert að standa undir þeim kostnaði sem hluti af mati á umhverfisáhrifum (MÁU) samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana og framkvæmda, nr. 111/2021. Framkvæmdaaðili þarf því að standa straum af umhverfisrannsóknum sem hlaupið geta á hundruðum milljóna króna.

Síðast en ekki síst þá setja þingmenn VG fram þau rök að gjaldið “taki tillit til raunverulegs umhverfiskostnaðar við framkvæmdir”. Þegar þessi rök eru skoðuð þá vaknar spurningin hvernig er það mælt? Er hægt að mæla þann kostnað með peningalegum mælikvarða? Í lögum nr 111/2021 er framkvæmdaaðila ætlað að rannsaka umhverfisáhrif og setja fram mótvægisaðgerðir. Er það ekki nóg? Eiga vindlundir líka að greiða óskilgreindan umhverfisskatt. Hvernig er slíkur skattur skilgreindur fyrir alla vindlundi sem líklegt er að hafi mjög mismunandi umhverfisáhrif enda ekkert landssvæði eins. Verður skatturinn mismunandi fyrir ólík landssvæði?

Að síðustu skulum við skoða hvaða áhrif ofurskattar á vindlundi munu hafa. Í fyrsta lagi er líklegt að hærri tilkostnaður muni skila sér í hærra raforkuverði til neytenda. Í öðru lagi hefur raforka verið skilgreind sem vara á samkeppnismarkaði og allar tilraunir til að takmarka samkeppni eða skekkja samkeppnisstöðu einnar tegundar raforku gegn annarri getur farið gegn ákvæðum samkeppnis- og raforkulaga. Í þriðja lagi verðu að skoða áhrif á jafnræðisreglu stjórnarskrár ef einni tegund raforkuframleiðslu er gert að greiða ofurskatta en annarri ekki.

Er virkilega þörf á að setja ofurskatta á vindlundi með þessum hætti? Eru 18 skattar ekki nóg?

www.okkarhlid.is


Ávinningur rafbílavæðingar þurrkaður út

Storm Orka ehf stefndi á að hefja framleiðslu á umhverfisvænni grænni raforku frá vindlundi félagsins árið 2021. Því miður gekk það ekki eftir m.a. vegna seinagangs í afgreiðslu stjórnvalda á umsóknum félagsins (brot á lögboðnum tímafrestum).

Viðskiptaráð, á nýlegu viðskiptaþingi, hvatti einmitt til umbóta á regluverkinu og bendir á að ef verulegar umbætur verði ekki gerðar þá mun Íslandi ekki takast að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið í loftslagsmálum.

Sæmundur Sæmundsson, forstöðumaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs(1), benti á að raforkuskortur í síðustu loðnuvertíð, þegar Landsvirkjun skerti raforkusölu vegna lágrar stöðu í vatnslónum, hefði orðið til þess að allur ávinningur af notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkast út. Svifasein stjórnsýsla og kærumál tefji framkvæmdir svo árum skipti.

Afar leitt er til þess að vita að ef vindlundur Storm Orku hefði ekki verið tafinn með þessum hætti þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir að ávinningur af rafbílavæðingu yrði að engu.

 

www.okkarhlid.is

 

(1) Morgunblaðið, 10. febrúar 2023


Um bloggið

Okkar hlið

Höfundur

Okkar hlið
Okkar hlið

Okkar hlið á vindorkumálum á Íslandi.  Við erum landeigendur að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð og höfum unnið að byggingu vindlundar þar í nokkur ár.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • flytimedferd
  • vindur i ramma
  • vindur i ramma
  • vindur i ramma
  • Screenshot 3_13_2023 8_32_06 AM

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband