7.3.2023 | 08:00
Ég á þetta, ég má þetta ofurskattar á vindlundi
Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um gjaldtöku vegna nýtingar á vindi sem þau kalla sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Rökin fyrir þessari þingsályktun segja þau vera að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í afkomu vegna nýtingar raforku og að slíkt gjald endurspegli umhverfisáhrif, standi undir eftirliti, ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum og að taka verður tillit til raunverulegs umhverfiskostnaðar við framkvæmdir.
Skoðum þessi rök aðeins. Fyrstu rökin eru að vindurinn sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Fram að þessu hefur vindurinn ekki verið skilgreindur sem auðlind heldur frekar sem óþurft. Þessi skilgreining á sér enga stoð í lögum og sem dæmi þá er vindurinn ekki skilgreindur sem auðlind í Auðlindalögum nr. 57/1998. En látum það liggja milli hluta, kannski er hægt að skilgreina vindinn sem sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Þá vaknar upp spurning, ef þjóðin á vindinn og bændurnir Jón og Gunna verða fyrir því óláni að vindurinn feykir þakinu af hlöðunni þeirra, eiga þau þá skaðabótakröfu á þjóðina sem á vindinn?
Fyrsta fullyrðingin talar einnig um að þjóðin eigi auðlindina. Raunin er hins vegar sú að ríkissjóður er sá lögformlegi aðili sem heldur á eignarhaldi t.d. þjóðlendna. Á þessu er munur.
Næstu rök tala um að tryggja þjóðinni (ríkissjóði) sýnilega hlutdeild í afkomunni. Þegar þessi fullyrðing er sett fram þá vaknar sú spurning, fær ríkissjóður enga skatta af vindlundum í dag? Svarið er að þegar skatttekjur ríkis- og sveitarfélaga eru skoðaðar af vindlundum kemur í ljós að vindlundir greiða í dag a.m.k. 18 tegundir skatta til stjórnvalda. Finnst þingmönnum VG það ekki vera nóg? Á að bæta einum skattinum enn við? Er virkilega þörf á því? Hvaða áhrif hafa slíkir ofurskattar á raforkuverð til neytenda?
Ein rökin sem sett eru fram virðast byggja á vanþekkingu eða misskilningi. Setja á aukaskatt á vindlundi til að standa undir ítarlegum rannsóknum og mælingum á virkjanasvæðum. Það upplýsist hér með að það er ekki ríkissjóður eða stofnanir ríkisins sem standa undir eða framkvæma þessar rannsóknir heldur er framkvæmdaaðilum gert að standa undir þeim kostnaði sem hluti af mati á umhverfisáhrifum (MÁU) samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana og framkvæmda, nr. 111/2021. Framkvæmdaaðili þarf því að standa straum af umhverfisrannsóknum sem hlaupið geta á hundruðum milljóna króna.
Síðast en ekki síst þá setja þingmenn VG fram þau rök að gjaldið taki tillit til raunverulegs umhverfiskostnaðar við framkvæmdir. Þegar þessi rök eru skoðuð þá vaknar spurningin hvernig er það mælt? Er hægt að mæla þann kostnað með peningalegum mælikvarða? Í lögum nr 111/2021 er framkvæmdaaðila ætlað að rannsaka umhverfisáhrif og setja fram mótvægisaðgerðir. Er það ekki nóg? Eiga vindlundir líka að greiða óskilgreindan umhverfisskatt. Hvernig er slíkur skattur skilgreindur fyrir alla vindlundi sem líklegt er að hafi mjög mismunandi umhverfisáhrif enda ekkert landssvæði eins. Verður skatturinn mismunandi fyrir ólík landssvæði?
Að síðustu skulum við skoða hvaða áhrif ofurskattar á vindlundi munu hafa. Í fyrsta lagi er líklegt að hærri tilkostnaður muni skila sér í hærra raforkuverði til neytenda. Í öðru lagi hefur raforka verið skilgreind sem vara á samkeppnismarkaði og allar tilraunir til að takmarka samkeppni eða skekkja samkeppnisstöðu einnar tegundar raforku gegn annarri getur farið gegn ákvæðum samkeppnis- og raforkulaga. Í þriðja lagi verðu að skoða áhrif á jafnræðisreglu stjórnarskrár ef einni tegund raforkuframleiðslu er gert að greiða ofurskatta en annarri ekki.
Er virkilega þörf á að setja ofurskatta á vindlundi með þessum hætti? Eru 18 skattar ekki nóg?
Um bloggið
Okkar hlið
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.