2.2.2024 | 07:56
Er skömmtun á grænni orku besta leiðin?
Vegna skorts á grænni raforku á Íslandi stendur til að setja skömmtunarkerfi í lög. Til stendur að ráðherra verði skömmtunarstjóri ríkisins.
Þessi staða, skortur á grænni raforku, er tilkomin vegna algjörlega óviðunandi stöðu í leyfisveitingum grænnar raforku sem tekur fjölda ára eða áratugi, eins og undirritaður hefur áður bent á. Ísland er nú í þeirri stöðu að auðveldara og mun fjótlegra er að fá leyfi fyrir skítugri díselorku en grænni orku, undarleg staða svo ekki sé meira sagt í ljósi metnaðarfulltra markmiða í loftslagsmálum sem sett hafa verið í lög nú þegar. Segja má að ein höndin sé uppi á móti annarri í stjórnun orku og loftslagsmála og ef ekkert verður að gert mun það kosta þjóðina þúsundir milljóna á ári í loftslagssektir.
Er ekki kominn tími til að hætta skipulögðum töfum á grænorku verkefnum og innviðauppbyggingu, á þeim rökum að það þurfi að vanda sig svo mikið og fara sér hægt. Þeir sem þekkja til þeirra krafna sem gerðar eru til rannsókna og mati á umhverfisáhrifum vita að slík rök halda ekki vatni, lög um mat á umhverfisáhrifum tryggja gæði, enga rammaáætlun þarf til eða tafir. Einnig er athyglisvert að krafan um að vanda sig er ekki gerð á skítugu díselorkuna.
Skömmtunarfrumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt af fjölda aðila, m.a. StormOrku, HS Orku, Orku Náttúrunnar, Samtökum Iðnaðarins, o.fl. sem er ekki furða enda stórundarlegt að land sem er jafn auðugt af tækifærum í grænni orku og Ísland er sé í þessari stöðu.
Þá spyr ég, er skömmtun á grænni orku besta leiðin eða eru aðrar leiðir betri? Ljóst er að skömmtun ræðst ekki að rót vandans en freistar þess að setja plástur á mesta skaðan fyrir heimili landsins. Jafn ljóst er hins vegar að atvinnustarfsemi og útflutningstekjur landsins munu líða fyrir. Ísland verður fyrir milljarða tjóni á ári hverju um ófyrirséða framtíð.
Lausnin
Í stað þess að setja upp skömmtunarkerfi sem ekki leysir vandamálið þá er hægt að ráðast að rót vandans og straumlínulaga leyfisveitingakerfi grænnar raforku, koma uppbyggingu í gang strax.
Lausnin felst í því að fella niður rammaáætlun enda hefur hún lokið tilgangi sínum og setja upp kerfi þar sem virkjunaraðilar sæki 1 leyfi sem tekur 1 ár að afgreiða. Með því að straumlínulaga leyfisveitingaferli grænnar raforku næst samstilling loftslags- og orkumála, og komið verður í veg fyrir stórkostlegt fjárhagstjón þjóðarinnar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og skerðingu á þjóðarafkomu.
Af hverju er ekki ráðist að rót vandans? Er skömmtunarplástra aðferðin virkilega besta leiðin?
Um bloggið
Okkar hlið
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.